Sá sem berst gegn ástinni tapar

mynd
Sandra Lyngdorf
Fréttablaðið, 25. maí. 2007 05:45

Rétturinn til að ganga í hjónaband telst til mannréttinda samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum en stjórnvöld í hverju ríki um sig velja hvernig þessum rétti er framfylgt. Einstaklingum af sama kyni er nú heimilt að giftast í Hollandi, Belgíu, Suður-Afríku, Kanada, Spáni og Massachusetts fylki í Bandaríkjunum. Suður-Afríka hefur nýlega samþykkt lög sem leyfa samkynheigðum að giftast eða staðfesta sambúð og í Hollandi er öllum pörum, óháð kyni, gert kleift að velja að staðfesta sambúð í stað þess að giftast.

Á næsta ári mun Svíþjóð breyta löggjöf sinni þannig að samkynhneigð pör eiga nákvæmlega sama rétt varðandi hjónaband og gagnkynhneigð pör, þ.e. hjónabandslöggjöfin verður kynhlutlaus. Samkvæmt hinum nýju sænsku lögum er trúfélögum heimilt að ákveða sjálf hvort þau vilja gefa pör saman. Dómstólar munu ekki lengur sjá um borgaralega vígslu því í hinu nýja kerfi munu nokkurs konar stjórnsýslunefndir skipa einstaklinga sem hafa það hlutverk að gefa fólk saman - gagnkynhneigð og samkynhneigð pör.

Jafnvel þótt munur réttaráhrifa staðfestrar sambúðar og hjúskapar séu ekki mikill á Íslandi, þá hefur staðfest sambúð ekki sömu samfélagslegu þýðingu og hjúskapur. Hjónaband er félagsleg stofnun sem hefur um aldir verið sáttmáli konu og karls. Og þó þessi skilgreining á hjúskap hafi um langt skeið verið eitt af grunngildum samfélagsins þá verður að taka tillit til breyttra tíma, nýrra gilda og skoðana.

Hefðbundin skilgreiningin á hjúskap ætti ekki að standa í vegi fyrir því að samkynhneigð pör gifti sig - staðfesta ást sína og trúfesti fyrir guði og mönnum. Jafnvel þó að trúuð samfélög reyni að halda hjónabandinu aðeins fyrir einstaklinga af gagnstæðu kyni, verður löggjafinn að skilgreina hjúskap á þann hátt að það samræmist ríkjandi gildum í þjóðfélaginu og gera þeim trúfélögum, sem það vilja, kleift að framkvæma hjónavígslu fyrir samkynhneigð pör. Auðveld lausn væri að gera hjónabandslöggjöfina kynhlutlausa. Hjónaband á að vera opið fyrir tvo einstaklinga án tillits til kyns þeirra.

Höfundur er lögfræðingur og vinnur hjá Mannréttindaskrifstofu Íslands.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband